Monday, July 23, 2012

Kamuthi 16-20 júlí



sorry langt blogg – þið takið bara pásu ;)

12 tíma næturlest tók við frá Chennai. Okkur leist ekkert á blikuna fyrst, við sveitt og ógeðsleg og mjög þröngt í lestinni, svona kojulest. En við sofnuðum öll og ég svaf bara mjög vel :)

Við Sunna fórum út á undan Bjarna og Klöru og hittum Jayekumar, konan sem var með næsta verkefni, og tókum local bus að Kamuthi.

Jayekumar er gullfalleg kona, fædd 1970 og vorum við í sjokki þegar við komumst að því, héldum að hún væri svona 28 ára. En hún á 3 börn 11 – 18 ára minnir mig og mömmu sem er mesta krútt í heimi. Við Sunna vorum að spá í að taka hana bara með okkur til Íslands :) Hún er með skarð í vörinni og eyrnalokkar í gegnum tíðina hafa togað eyrnasnepplana niður um svona 6 cm.

Jayekumar er mjög skemmtileg og rosa klár en mætti kunna meiri ensku :) Hún er kona sem lætur ekki ganga yfir sig. Algjör business lady – alltaf í símanum. Hun á tvö hús, annað ekki með klósetti sem er mjög sérstakt þvi þú finnur allt annað þar ;) síðan rekur hún sjálfhjálparheimilið þar sem við Sunna gistum og einnig aðsetur fyrir handicapped og disabled people í öðru þorpi. Settum sitthvora 4000 rúbíurnar á sjálfshjálparheimilið og handicapped staðinn. 

Í stað þess að leyfa okkur Sunnu bara að sofa tvær á gólfinu í sjálfhjálparheimilinu þá sofa Jayekumar og PothumPonnu (25 ára gullfalleg stelpa) á gólfinu hjá okkur í stað þess að fara heim og sofa í rúmi.
Reyndar má PothumPonnu ekki sofa í rúmi næsta mánuðinn, hún er að gera eitthvað svona trúarlegt fyrir guðinn sinn (hindú) og má ekki ganga í skóm, borða fisk, egg, kjúkling og ekki sofa í rúmi í 3 mánuði! Við Sunna áttum ekki orð!!

Hóparnir á sjálfhjálparheimilinu eru að sauma, binda bækur, búa til myndaramma, búa til körfur – annarsvegar úr pálmatrjám og hins vegar úr plasti. Loks á þriðja degi fengum við Sunna að gera myndaramma – Ég fekk mynd af Jesú, langaði rosa að taka hana heim og gefa pabba ;) hann yrði svoooo ánægður ;) híhí. Og einnig lærðum við að gera körfur úr plastinu, ég er enn að vinna í þeirri körfu.. mjög seinlegt.

Þar sem þetta var nýr staður og nýtt verkefni þá vissu þau ekki alveg hvernig átti að gera og fyrstu 2 dagarnir fóru í að sýna okkur hópana. Fyrsta daginn fórum við í þorpin og við Sunna vorum eins og stórstjörnur. Allir þorpsbúar mættir til að sjá hvíta fólkið (þó Sunna sé hálf íslensk og hálf Haiti þá er hún hvít hér). Við fengum að prófa að gera körfu úr pálmalaufunum og allir klöppuðu og fögnuðu þegar ég var búin að gera smá.. hvíta manneskjan að vinna OMG! (Treystið mér þetta var ekki svo erfitt ;) )

Í næsta þorpi skánaði þetta ekki. Allir hópuðust að okkur og þegar myndavélin var tekin upp stukku allir krakkarnir til, hoppuðu og kölluðu til að vera inn á myndinni. Siðan hlupu þau á eftir autonum þegar við fórum til baka.

Note to self: Ég ætla ekki að vera fræg ;)

Dagur tvö fór í rútuferðir, 3 rútur sem við þurftum að taka til að komast að handicapped heimilinu.
Þar gerðum við svo sem ekkert, hittum bara fólkið sem vinnur þar, sumir voru með einhverja fötlun – á hækjum eða áttu erfitt með gang og svona.

Bróðir Jayekumar kom og sótti okkur og bílstjórinn keyrði eins og brjálæðingur! Sunna fann fyrir bílveiki og greyið PothumPonnu stoppaði bílinn og fór út að æla. En enduðum heima hjá honum þar sem við fengum mat og við Sunna fengum að leggja okkur í 1 og hálfan tíma, búnar á því úr þreytu enda vöknuðum við kl 6.30. en samt ekkert gert fyrr en 9 þegar við fengum morgunmat og fórum af stað...
Skiljum ekki enn afhverju þau vakna kl 5.30 eða 6.00 ! hvað eru þau eiginlega að gera ?

Justice – er ca 67 ára maður sem var alltaf með okkur og dóttir hans Gilda sem var eitthvað um 35 – 40. Þau kunnu ensku, eða svona gátu aðeins meira en hin. PothumPonnu kunni samt eitthvað líka. Justice og Gilda eru mjög trúuð, kristin trú og er Gilda t.d. Að læra að verða prestur og ætlar ekki að giftast, helgar lífi sínu Jesú. Mjög fín feðgin.

Þau halda án djóks að við höfum aldrei gert neitt í lífinu... Ætluðu að þvo þvottin okkar og við þurftum að ýta þeim nánast burt, síðan sótti Justice fólkið þegar ég skrældi einn ávöxtinn út pálmatré og þau klöppuðu og áttu ekki orð þegar ég sagaði spýtu!

Síðan megum við aldrei ganga frá eftir okkur, diskarnir alltaf teknir af manni og um leið og maður kemur í herbergi er komið með stól handa manni. Við getum alveg setið á gólfinu :) En við getum sagt að þessar elskur séu of hjálpsamar :)

Hittum loks enskumælandi Indverja. Mjög indæll maður sem var kennari og býr í Texas. Durai heitir hann og hann ætlaði að bjóða okkur í mat. Bíllinn hans var á verkstæði og síðasta kvöldið kom hann á sjálfhjálparheimilið, en við akkurat úti. Þannig að hann skildi bara eftir mat og ávexti fyrir heilt þorp!

Gestrisnahefð sem ég og Sunna afrekuðum að brjóta síðasta kvöldið okkar! Létum þau borða á sama tíma og við (matinn frá Durai)! Við nefnilega borðum alltaf á undan þeim, svo borða þau, mjög pirrandi, ég vil að allir borði saman :)

Ég keypti mér 2 sari-a, einn vínrauðan og grænan og annan bláan. Ég mátti ekki borga fyrir saumaskapinn!

Jayekumar borgaði allt fyrir okkur Sunnu og leyfði okkur ekki að borga neitt, hvorki skartið sem ég keypti mér við sari og einhverjar gjafir, einnig borgaði hún allar lestarferðir og vatn og allt. Við ætluðum að lauma til hennar pening en það tókst ekki. Hún ætlaði meira að segja að gefa okkur sitthvorn sari-inn en við náðum að segja nei.

Gullkorn: Sunna ætlaði að vera mjög smooth og ganga laumulega frá stóru eyrnalokkaspjaldi sem hafði dottið þegar hún rakst í það og gat ekki hengt upp aftur. Við vorum í minnstu búð í heimi ca. 60 cm á milli Sunnu og búðarkallsins. Sunna gjóir augunum laumulega á kallinn á meðan hún brýtur spjaldið saman og hendir því síðan inn í hilluna og um leið fer rafmagnið af. Kom svo í ljós að hún hitti akkurat í ljósrofann!

Gullkorn: Við erum að ganga í myrkrinu í Sari-unum og mætum 2 stelpum í kringum 10 ára sem horfa niður fyrir sig. Þegar þær líta upp stökkva þær til hliðar því þeim brá svo að sjá hvíta fólkið :D

sorry fyrir langt blogg ;)
- Berglind

No comments:

Post a Comment